Rafiðnaðardeild VMA fær góða gjöf frá Tengi
Það er gömul saga og ný að gott samstarf atvinnulífs og VMA er afar mikilvægt og í gegnum tíðina hafa fyrirtæki sýnt skólanum og því starfi sem unnið er innan veggja hans mikinn skilning og stutt við bakið á því.
Gott dæmi um stuðning atvinnulífsins við kennsluna í VMA er gjöf sem Tengi á Akureyri færði á dögunum rafiðnaðardeild VMA. Um er að ræða ýmsan búnað sem tengist gólfhitakerfum í húsum. Í öllum nýjum húsum eru gólfhitakerfi og sömuleiðis hafa slík kerfi verið sett í eldri hús og þá er farið að nota þráðlaus stýrikerfi þar sem notast er við öpp.
Guðmundur Ingi Geirsson, kennari í rafiðngreinum, segir að það sé tvennt ólíkt að kenna nemendum hvernig slíkur búnaður virki þegar þeir geti sjálfir handleikið hann og skoðað, í stað þess að sýna hann á glærum upp á vegg. Þess vegna sé þessi gjöf frá Tengi afar mikilvæg og fyrir hana beri að þakka af heilum hug.
Meðfylgjandi mynd var tekin í Tengi þegar gjöfin var afhent. Á myndinni eru Einar Ingi Þorsteinsson og Guðmundur Stefánsson, sölumenn hjá Tengi, Anna María Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, og kennararnir í rafiðngreinum, Guðmundur Ingi Geirsson og Ari Baldursson.