Særún Elma verður fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna
Eitt og annað hefur covid 19 faraldurinn sett úr skorðum og þar er félagslífið í framhaldsskólum landsins ekki undanskilið. Í apríl sl. var ætlunin að efna til Söngkeppni framhaldsskólanna og stóð til að keppnin færi fram á Akureyri. Af því gat ekki orðið vegna kórónuveirufaraldursins sem skall á af krafti í mars.
En keppninni var aðeins slegið á frest og nú er komið að því að halda hana. Hún fer sem sagt fram næstkomandi laugardagskvöld, 26. september, í beinni útsendingu Rúv. Útsendingin hefst kl. 19:45 og verður sent út frá húsnæði Exton. Engir áhorfendur verða á keppninni.
Særún Elma Jakobsdóttir, sem sigraði Sturtuhausinn, söngkeppni VMA, 23. janúar sl. verður fulltrúi Verkmenntaskólans í Söngkeppni framhaldsskólanna á laugardagskvöldið.