Sjúk ást í lífsleikni
Heilbrigð sambönd, óheilbrigð sambönd, kynlíf, klám, jafnrétti, kynhlutverk, skaðleg karlmennska, kynbundið ofbeldi, kynheilbrigði, klámvæðing, samþykki, samskipti, mörk, hinsegin, traust, meðvirkni, afbrýðisemi.
Allt eru þetta hugtök sem rúmast innan átaks Stígamóta sem kallað er „Sjúk ást“. Átakið fjallar í stórum dráttum um ofbeldi í samböndum ungmenna og er markmiðið að það sé forvörn gegn ofbeldi. Áhersla er lögð á að fræða ungt fólk um mörk og samþykki í samböndum og að það þekki muninn á heilbrigðum samböndum, óheilbrigðum samböndum og ofbeldisfullum samböndum.
Í þessari síðustu kennsluviku fyrir páska er sjónum beint að þessu mikilvæga málefni í kennslu í lífsleikni í VMA. Fyrsta árs nemendur skoða málið frá ýmsum hliðum, vinna verkefni, hengja upp veggmyndir o.fl. sem minna þá á boðskap Sjúkrar ástar.
Þegar kíkt var inn í kennslustund í lífsleikni í gær hjá Jóhanni Gunnari Jóhannssyni (Bróa) voru nemendur hans önnum kafnir í verkefnavinnu sem tengist Sjúkri ást.