Skólastarfið hefst í VMA - um 1000 nemendur í dagskóla
Kennsla hófst sl. föstudag samkvæmt stundaskrá á starfsbraut VMA en í öðrum deildum hefst kennsla í dag.
Sem næst 1000 nemendur hefja nám í dagskóla á haustönn. Nýnemar eru 228 samanborið við 229 við upphaf síðasta skólaárs. Til viðbótar við nemendur í dagskóla eru fjarnemendur en ekki liggur fyrir hversu margir þeir verða, umsóknarfrestur um fjarnám er til mánaðamóta og kennsla fjarnámsnema hefst í fyrstu viku september.
Nýnemar komu í skólann sl. fimmtudag og föstudag til þess að fá kynningu á skólanum og ýmsar hagnýtar upplýsingar um námið. Fulltrúar nemendafélagsins Þórdunu afhentu nýnemum poka með ýmsu góðgæti.
Eins og fram hefur komið þurfti að fresta skólabyrjun frá upphaflegum áætlun. Ástæðan var sú að lengri tíma þurfti til þess að skipuleggja skólastarfið með hliðsjón af þeim sóttvarnareglum sem Almannavarnir og Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa gefið út. Í stórum framhaldsskóla eins og VMA og með margar og ólíkar námsbrautir hefur verið krefjandi verkefni að skipuleggja skólastarf með sóttvarnareglur að leiðarljósi. Stundatöflugerðin, sem jafnan er mikið púsluspil hefur verið flóknari en nokkru sinni fyrr. Áhersla er lögð á að nýnemar fái sem mesta kennslu í skólanum en í einhverjum fjölmennum bóklegum áföngum þarf að skipta nemendum upp í minni hópa og verður þá hluti kennslunnar í skólanum og hluti í fjarnámi.
Síðastliðinn föstudag birti skólameistari VMA ítarlegar upplýsingar um sóttvarnareglur í skólastarfinu sem allir þurfa að kynna sér mjög vel.