Smíðuðu á annað hundrað herðatré fyrir heimsmeistaramót kvenna í íshokkí
Á dögunum fengu nemendur á síðustu önn í stál- og blikksmíði í VMA ósk um að taka að sér áhugavert verkefni – sem sagt að smíða 115 herðatré fyrir heimsmeistaramót kvenna í 2. deild í íshokkí sem hefst í Skautahöllinni á Akureyri nk. sunnudag. Sex þjóðir taka þátt í mótinu, auk Íslands eru það Ástralía, Tyrkland, Nýja-Sjáland, Króatía og Úkraína.
Allir leikmenn þurfa herðatré fyrir búninga sína og yfirhafnir sem þeir nota í mótinu. Þessi sérsmíðuðu herðatré eru því öðruvísi en venjuleg herðatré, þau eru mun sterkari og lögun þeirra er ekki sú sama og gengur og gerist. Efnið í herðatrén eru 6 mm teinar.
Fyrirvarinn á smíðinni var ekki mikill en nemendurnir létu það ekki á sig fá og brettu rækilega upp ermar. Hér má sjá myndir af herðatrjánum og smíði þeirra í gær.
Nemendur segja að það hafi komið sér vel að sl. þriðjudag hafi verið námsmatsdagur í skólanum og þann dag hafi þeir nýtt frá morgni til kvölds til þess að smíða herðatrén. Í gær voru þeir einnig í marga tíma að smíða og miðaði vel áfram. Engan tíma má missa því herðatrén þarf að afhenda í dag, allt þarf að vera klárt í tíma þegar flautað verður til leiks í Skautahöllinni nk. sunnudag. Fyrsti leikur íslenska liðsins verður á sunnudagskvöldið við Ástrali kl. 20:00. Hér má sjá dagskrá heimsmeistaramótsins.
Það var sannarlega líf og fjör í málmiðnaðardeildinni í gær. Stóra verkefni nemenda í stál- og blikksmíði er smíði á tveimur kerrum og herðatrén komu sem óvænt viðbótarverkefni. Við munum segja nánar frá kerrusmíðinni síðar. Einnig voru í gær nemendur grunnskóla Akureyrar að kynna sér námið á málmiðnaðarbraut eins og í öðrum deildum skólans og má hér sjá nemendur úr Brekkuskóla fá upplýsingar frá Herði Óskarssyni brautarstjóra málmiðnaðarbrautar.