Sóley Margrét Jónsdóttir Evrópumeistari í kraftlyftingum
Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingakona í Kraftlyftingafélagi Akureyrar og sjúkraliðanemi í VMA, fagnaði Evrópumeistaratitli í kraftlyftingum á Evrópumeistaramóti ungmenna í Pilsen í Tékklandi í fyrradag og setti auk þess Evrópumet í hnébeygju í +84 kg í flokki 14-18 ára með 232,5 kg. Þetta var annað árið í röð sem Sóley Margrét verður Evrópumeistari í sínum aldursflokki. Hún er sextán ára gömul, verður sautján ára í næsta mánuði. Hér má sjá myndband af Evrópumetslyftu Sóleyjar Margrétar í hnébeygju.
Sóley tók einnig gullið í bekkpressu með 115 kg. Og það sama gerði hún í réttstöðulyftu með 200 kg.
Samanlagt lyfti Sóley Margrét 547,5 kg sem tryggði henni gullverðlaunin og Evrópumeistaratitilinn. Þessi þyngd er hennar besti árangur til þessa. Jafnframt setti hún nýtt Íslandsmet í opnum flokki og Norðurlandameti í flokki 14-18 ára.
Þetta er hreint magnaður árangur hjá Sóleyju Margréti. Henni eru sendar hlýjar kveðjur og árnaðaróskir með Evrópumeistaratitilinn.