Fara í efni

Stefnt á nám í kjötiðn, matreiðslu og framreiðslu á vorönn - opið fyrir umsóknir

Verkleg æfing framreiðslunema 27. apríl 2023. Í júní 2023 luku fyrstu framreiðslunemarnir frá VMA sv…
Verkleg æfing framreiðslunema 27. apríl 2023. Í júní 2023 luku fyrstu framreiðslunemarnir frá VMA sveinsprófi. Ef næg þátttaka fæst er stefnt að því að bjóða upp á 2. bekk í framreiðslu á vorönn 2025.

Eins og jafnan á þessum tíma árs er opið fyrir nám á vorönn í VMA – nám til stúdentsprófs, iðn-, tækni- og starfsnám.

Vert er að vekja athygli á því að ef nógu margir sækja um er ætlunin að bjóða upp á nám á vorönn i þriðja bekk í kjötiðn, 2. bekk í framreiðslu (þjónninn) – sem yrði þá í annað skipti sem boðið yrði upp á það nám í VMA – og 3. bekk í matreiðslu (þriðji og síðasti bekkurinn í matreiðslu fyrir sveinspróf).

Takist að fá lágmarksfjölda nemenda í framreiðslu og matreiðslu er ljóst að mikið verður um að vera á matvæla- og ferðamálabraut VMA á vorönn. Auk seinni annarinnar í grunndeild verður þá kennd 5. önn í matartækni (lotunám), 3. bekkur í kjötiðn (lotunám), 3. bekkur í matreiðslu og 2. bekkur í framreiðslu. Og að því gefnu að 3. bekkur matreiðslu verði kenndur á vorönn stefnir í brautskráningu nemenda næsta vor í matreiðslu, matartækni og kjötiðn.

Í fyrsta skipti var fyrir tveimur árum í boði nám í 2. bekk í framreiðslu í VMA. Þriðji bekkurinn var síðan keyrður á vorönn 2023 og fyrstu framreiðslumennirnir voru brautskráðir frá VMA vorið 2023. 

VMA hefur útskrifað átta hópa af matartæknum, fjóra hópa af kjötiðnarmönnum, þrjá hópa af matreiðslumönnum og einn hóp af framreiðslumönnum.

-------

Ekki aðeins er innritun í nýja námshópa á matvæla- og ferðamálabraut. Opið er fyrir umsóknir í hársnyrtiðn á 1. og 4. önn, pípulagnir á 1. önn eftir grunndeild byggingadeildar og kvöldskóla í rafiðngreinum.

-------

Innritun fyrir vorönn stendur til 2. desember nk. Sjá hér.