Sturtuhausinn nk. fimmtudagskvöld - miðasala hefst á mánudag
Að tæpri viku liðinni, nánar tiltekið fimmtudagskvöldið 23. janúar kl. 20:00, verður blásið til leiks í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA 2020 í Gryfjunni. Frá árinu 2014 hefur keppnin verið haldin í Hofi en nú verður hún sem sagt haldin aftur í Gryfjunni enda hafa margir kallað eftir því að keppnin yrði haldin á sínum upprunalega stað, þar hafi tekist að ná upp meiri stemningu og auk þess gefst tækifæri til þess að æfa meira fyrir keppnina með því að halda hana í Gryfjunni.
Í gær var haldinn fundur með keppendum í Sturtuhausnum þar sem var farið yfir ýmis atrið varðandi framkvæmd keppninnar og lagðar línur með æfingar fram að keppni. Fyrsta æfingin var reyndar strax að fundinum loknum í Gryfjunni í gær og aftur verður æft á bæði mánudag og þriðjudag. Tónlistarstjóri keppninnar í ár er Ingvi Ingvason, tónlistarmaður á Akureyri, og fór hann yfir ýmis atriði á fundinum í gær og gaf þátttakendum góð ráð.
Tíu lög verða í keppninni í ár og verður undirleikur að hluta til af bandi (playback) og einnig mun hljómsveit skipuð nemendum í VMA spila undir í nokkrum lögum. Í hljómsveitinni eru: Jóel Örn Óskarsson gítar, Alexander Örn Hlynsson gítar, Ágúst Máni Jóhannsson bassi, Ólafur Anton Gunnarsson trommur og Árdís Eva Ármannsdóttir píanó.
Tæknimenn á Sturtuhausnum í ár eru nemendur í skólanum og því verður hann í ár að langstærstum hluta unninn af nemendum.
Miðasala á Sturtuhausinn hefst nk. mánudag í Gryfjunni og kostar miðinn fyrir Þórdunumeðlimi kr. 1.500, gegn framvísun annarra skólaskírteina kr. 2.000 og fyrir aðra kostar miðinn kr. 2.500. Aðgöngumiðar verða einnig seldir við innganginn nk. fimmtudagskvöldið, húsið verður opnað kl. 19:30.
Sigurvegarinn í Sturtuhausnum 2020 verður sem fyrr fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna sem verður haldin 18. apríl nk.