Sumarbústaður rís
Það er alltaf ánægjulegt að sjá þegar sumarbústaðurinn sem nemendur á þriðju önn í húsasmíði smíða rís af grunni. Grind bústaðarins - bæði gólf og veggir - er forsmíðuð innanhúss og þegar allt er tilbúið er kallað á kranamann til þess að hífa alla hluti á sinn stað.
Í gær var komið að stóru stundinni. Kranamaðurinn mætti snemma í gærmorgun og á tíunda tímanum var hafist handa við að púsla þessu öllu saman. Fyrst var gólfgrindin dregin út og komið á sinn stað og síðan voru veggirnir hífðir einn af öðrum á sinn stað. Þetta var eins og að byggja hús úr legókubbum, allt féll þetta eins og flís við rass. Verkið gekk mjög vel og voru allir veggir komnir á sinn stað röskum þremur tímum eftir að hafist var handa.
Í mörg horn verður að líta á næstu vikum, bæði í úti- og inniverkum. Fyrst þarf að loka húsinu og síðan verður það klætt að utan og auðvitað bíða ófá handtökin innandyra.
Smíði sumarhússins er fyrst og fremst skemmtilegt og umfram allt afar lærdómsríkt verkefni fyrir nemendur og til þess er leikurinn einmitt gerður, að nemendur læri sem mest af smíðinni og þjálfist í fjölmörgu er lýtur að smíði slíks húss.