Þakklát fyrir að hafa komið til Íslands
Andrea Lísbet Rivera býr með fjölskyldu sinni á Grenivík en stundar nám í grunndeild málmiðnaðar í VMA. Að grunndeildinni lokinni ætlar hún að halda áfram námi í vélstjórn. Raunar er hún nú þegar byrjuð að taka nokkur vélstjórnarfög.
„Ég er fædd í Hondúras í Mið-Ameríku en flutti til Íslands með mömmu þegar ég var fjögurra ára gömul og hún giftist hér. Ég var í Grenivíkurskóla og að honum loknum fór ég í MA og tók þar fyrsta árið en ákvað að koma hingað í VMA sl. haust. Ég ætlaði reyndar alltaf að koma hingað í grunndeild málmiðnaðar en bóklegu fögin sem ég tók í MA sl. vetur nýtast mér ágætlega í náminu hér. Stjúppabbi minn er vélstjóri og afi gerði út bát. Það má því segja að ég hafi snemma fengið áhuga á að læra eitthvað í þessa veru og ég sé ekki eftir því að hafa skráð mig í þetta nám, þetta er mjög gagnlegt og skemmtilegt. Það er svo mikils virði að læra að gera hlutina sjálf en vera ekki upp á aðra komin. Þetta er krefjandi nám en ekki þó eins erfitt og ég átti fyrirfram von á. Verklegu tímarnir eru mjög skemmtilegir og í augnablikinu finnst mér skemmtilegast að glíma við rafsuðuna. Ég er eina stelpan í þessum hópi og mér finnst það ekkert mál. Strákarnir eru mjög duglegir að hjálpa mér. Vinkonum mínum finnst svolítið fyndið að ég sé í þessu námi en ég segi þeim á móti að þetta sé mjög gaman, þær þurfi bara að prófa. Það er leiðinlegt að ekki skuli fleiri stelpur fara í þetta nám.“
Þegar litið var inn í grunndeild málmiðnaðar var hópurinn sem Andrea er í að æfa sig í svokallaðri hlífðargassuðu.
Auk íslenskunnar talar Andrea spænsku, sem er tungumál fólks í Hondrúras, reiprennandi. Hún segist nokkrum sinnum hafa farið til Hondúras og hitt ættingja sína þar. Þetta séu tvö ólík þjóðfélög, í Hondúras sé stéttaskipting mjög áberandi og mikil fátækt. Tækifæri ungs fólks séu mun fleiri hér á landi og segist Andrea vera þakklát fyrir að hafa flust til Íslands og fengið tækifæri til þess að þroskast hér og afla sér menntunar.
Andrea býr á heimavist og kann því vel. Hún býr með vinkonu sinni frá Siglufirði í herbergi. Þær kynntust sl. vetur í 1. bekk í MA en báðar færðu þær sig upp í VMA sl. haust. „Ég reyni að skjótast heim um helgar ef ég get. Ég tek nokkrar vaktir með skólanum á Subway og stundum eru þær um helgar,“ segir Andrea Lísbet Rivera