Þriðjudagsfyrirlestur um íslensku í Vesturheimi
Í dag, þriðjudaginn 23. febrúar, kl. 17 heldur Kristín M. Jóhannsdóttir aðjúnkt við Hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Íslensk tunga í Vesturheimi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um stöðu íslenskunnar í Vesturheimi og hvernig samfélagið sjálft spilar þar inn í. Sérstök áhersla verður lögð á þær breytingar sem orðið hafa á málinu og hvað það er sem breytist eða jafnvel glatast í máli einstaklinga og samfélaga.
Á árunum 1870-1914 fluttist hátt í fimmtungur landsmanna til Vesturheims. Langflestir fluttu til Manitoba þar sem þeir stofnuðu eigið samfélag, Nýja-Ísland, þar sem íslenska var nokkurs konar opinbert tungumál. Síðan eru liðin mörg ár og staða íslenskunnar að vonum ekki eins sterk á þessum slóðum.
Kristín M. Jóhannsdóttir hefur doktorspróf í málvísindum frá háskólanum í Bresku Kólumbíu og bjó í tólf ár í Kanada þar sem hún kenndi meðal annars íslensku við Manitóbaháskóla.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í Ketilhúsinu á þriðjudögum í vetur sem hófst sl. haust og lýkur fyrir páska.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis og eru allir velkomnir