Þróunarverkefni um nemendur af erlendum uppruna í samstarfi við SÍMEY
Frá því síðla árs 2022 hefur Verkmenntaskólinn í samstarfi við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar unnið að þróunarverkefni sem ber yfirskriftina Skólafærni óskólagenginna erlendra framhaldsskólanema. Verkefnið naut styrks úr Þróunarsjóði innflytjendamála, sem Háskólasetur Vestfjarða hefur forræði yfir fyrir hönd félags- og vinnumálaráðuneytisins. Af hálfu VMA vann að verkefninu Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri erlendra nema í skólanum, en af hálfu SÍMEY verkefnastjórarnir Kristín Björk Gunnarsdóttir og Sif Jóhannesar Ástudóttir. Verkefninu er nú lokið og er þessa dagana verið að skila lokaskýrslu um það.
Í takti við fjölgun innflytjenda á Íslandi á undanförnum árum hefur hlutur tungumálakennslu, íslensku sem annars máls, aukist jafnt og þétt. Í hópi innflytjenda er fólk sem af ýmsum ástæðum hefur brotna eða takmarkaða skólagöngu að baki og hefur því takmarkaða burði til þess að lesa eða skrifa sitt móðurmál. Þetta þróunarverkefni var því ekki síst í því fólgið að finna leiðir til þess að þjónusta þetta fólk. Þetta hefur verið takmarkað skoðað hér innanlands og því var leitað út fyrir landsteinana, fyrst og fremst til Svíþjóðar og Hollands. Þessi heimildaleit leiddi þátttakendur í verkefninu á braut „LASLLIAM“ sem er viðbót við Evrópska tungumálarammann og tekur mið að þörfum fullorðinna innflytjenda með litla eða enga skólagöngu og/eða glíma við ólæsi.
Þó svo að innflytjendur í námi í íslensku sem öðru máli komi víða að eru hlutfallslega flestir mælandi á arabísku. Því varð úr að leitað var til Ahmed Essabiani, sem hefur mikla reynslu af mótttöku og kennslu fyrir innflytjendur, meðal annars í SÍMEY, og vann hann og prufukenndi efni fyrir ó- og/eða líttlæsan hóp.
Kennsla fyrir innflytjendur er af ýmsum toga í bæði VMA og SÍMEY. Á þessu vormisseri hefur kennslu nemenda af erlendum uppruna verið fundinn farvegur í VMA í svokallaðri Íslenskubrú, sem er ný námsbraut fyrir nemendur af erlendum uppruna. Í SÍMEY er fullorðinsfræðsla og því eru þar eldri nemendur sem læra grunninn í íslensku og ýmislegt um íslenskt samfélag og menningu.