Fara í efni

Tóku þátt í hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskóla

Fulltrúar VMA á hæfileikakeppni starfsbrauta 2023.
Fulltrúar VMA á hæfileikakeppni starfsbrauta 2023.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð hversu mikið heimsfaraldur kórónuveiru hefur sett allt eðlilegt skóla- og félagsstarf úr skorðum undanfarin ár. Einn af föstum liðum fyrir faraldurinn var að efna til hæfileikakeppni nemenda á starfsbrautum framhaldsskóla landsins en nú var loks hægt að blása aftur til leiks og var keppnin haldin í húsnæði gamla Sjómannaskólans í Reykjavík, sem nú hýsir hluta af starfsemi Tækniskólans. Það var sem sagt starfsbraut Tækniskólans sem hélt utan um hæfileikakeppnina og hafði allan veg og vanda að henni. Að sjálfsögðu tók VMA þátt í keppninni, sem var haldin sl. þriðjudag, 18. apríl, og var framlag nemenda stuttmynd sem var brugðið upp á breiðtjald í keppnissalnum í Sjómannaskólanum.

Auðvitað var gerð út sendinefnd úr VMA til þess að vera viðstödd sýningu myndarinnar, sem ber heitið Draumurinn, og taka þátt í stórskemmtilegum viðburði í Tækniskólanum. Sex nemendur fóru suður yfir heiðar, kennararnir þeirra sem hafa aðstoðað við kvikmyndagerðina og stuðningsfulltrúi. Ekið var suður að morgni sl. þriðjudags og komið heim til Akureyrar aðfaranótt miðvikudags. 

Nemendurnir sex sem fóru til Reykjavíkur til þess að taka þátt í keppninni eru: Anton Orri Hjaltalín, Þorgeir Viðar Gunnlaugsson, Reymar Óli Zambrano Hafdísarson, Birta Rós Harðardóttir, Valdimar Tryggvi Hannesson og Soffía Margrét Bragadóttir. Með þeim fóru suður kennararnir Anna Jóhannesdóttir og Inga Dís Árnadóttir og stuðningsfulltrúinn og bílstjórinn Óskar Þór Halldórsson. Hópurinn er á meðfylgjandi mynd sem var tekin þegar lagt var í hann suður að morgni sl. þriðjudags. 

Hæfileikakeppnin í Tækniskólanum hófst kl. 18:00 og stóð í rúma tvo tíma. Eftir að komið var til Reykjavíkur og þar til keppnin hófst nutu nemendur VMA lystisemda höfuðborgarsvæðisins með því að skoða ýmislegt áhugavert í Smáralind og síðan var farið í leikjasalinn Skopp.

Haft var á orði að aldrei áður hafi hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna verið svo vel sótt. Ekki þarf að orðlengja það að fullt var út úr dyrum og stemningin var ósvikin. Flutt voru þrettán atriði frá jafnmörgum skólum og voru þau af ýmsum toga - söngur, dans, stuttmyndir, bardagalistir o.fl. Allt frábærlega skemmtileg atriði og áhrifamikil. Í þriggja manna dómnefnd var m.a. söngvarinn og fjöllistamaðurinn Haffi Haff sem hélt heldur betur uppi fjörinu. Dómnefnd dró ekki úr því að nær ömögulegt hafi verið að gera upp á milli frábærra atriða en lokaniðurstaðan var sú að hæfileikakeppnina sigruðu krakkarnir á starfsbraut MH með atriðinu sínu sem var blanda gítartónlistar og sýningar myndverka sem nemendur hafa gert.

Skólarnir sem tóku þátt í hæfileikakeppninni voru auk VMA:

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki
Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi
Fjölbrautaskóli Suðurnesja í Keflavík
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
Fjölbrautaskólinn í Mosfellsbæ
Fjölbrautaskólinn við Ármúla
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Tækniskólinn
Borgarholtsskóli
Menntaskólinn við Hamrahlíð

Eftir keppnina var haldið heim á leið til Akureyrar og VMA-leiðangurinn kom heim um kl. 02 aðfaranótt miðvikudags. Þreyttir en sælir nemendur og starfsmenn eftir langan en afar skemmtilegan og vel heppnaðan dag. Milli 7 og 800 km akstur fram og til baka milli landshluta á einum degi var vel þess virði!