Tólf þreyttu sveinspróf í vélvirkjun
Um liðna helgi var sveinspróf í vélvirkjun í húsnæði málmiðnbrautar VMA og þreyttu tólf prófið. Bóklegt próf var sl. föstudag en verklega prófið sl. laugardag og sunnudag.
Sveinspróf í vélvirkjun er margþætt: skriflegt próf, smíðaverkefni, bilanaleitarverkefni, slitmælingarverkefni, suðuverkefni, frágangur smíðaverkefnis og vinnuhraði við smíðaverkefnið.
Í smíðaverkefninu var horft til margra þátta, t.d. nákvæmni í meðferð handverkfæra, mælitækja, lesturs teikninga og vélavinnu.
Í bilanaleit var sett inn bilun í díselvél sem próftakar þurftu að finna og að sama skapi fólst prófið í slitmælingu í því að mæla ýmsa hluti í díselvél og meta hvort þeir væru í lagi eða hvort skipta þyrfti um þá og gera stutta skýrslu um það.
Í suðunni var prófað í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu. Einnig var prófað í logskurði.
Sveinsprófið þreyttu að þessu sinni: Ari Rúnar Gunnarsson, Axel Reyr Rúnarsson, Bjarki Reynisson, Daniel Rosazza, Elvar Jóhann Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldvinsson, Guðmundur Smári Guðmundsson, Gunnar Sigurðsson, Hákon Karl Sölvason, Sigurður Gísli Gunnlaugsson, Sigurður Traustason og Svala Björk Svavarsdóttir.