Tónlistin er ákveðið afdrep
Á Sturtuhausnum – Söngkeppni VMA fyrr í þessum mánuði vakti framlag Arnar Smára Jónssonar verðskuldaða athygli. Hann var eini flytjandinn sem flutti frumsamið lag í keppninni. Lagið nefndi hann „Wait“ og samdi hann það – bæði lag og texta - í minningu afa síns sem lést sl. sumar.
Örn Smári segir að tilviljun ein hafi ráðið því að hann flutti lag sitt með eigin hljómsveit á sviðinu í Hofi. Nokkrum dögum fyrir keppnina hafi hann hitt að máli kunningja sinn, trommarann Val Frey, sem í framhaldinu hafi hóað í aðra tvo hljóðfæraleikara, Jóel Örn á gítar og Viktor Mána á bassa, og smám saman hafi málin þróast þannig að ákveðið var að þeir þremenningar myndu flytja lagið með honum í keppninni. Allir eru þeir nemendur í VMA.
Örn Smári er Húnvetningur, frá bænum Stóra-Búrfelli. Hann segist lengi hafa haft áhuga á tónlist, á sínum tíma hafi hann lært á píanó í Húnavallaskóla og síðar undirstöðuna á gítar og fljótlega eftir það, þegar hann var í 9. bekk, hafi hann byrjað að leika sér við að semja stef. Hann segir að töluvert sé um tónlistargen í fjölskyldunni, t.d. sé Jón faðir hans í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sem sigraði í kórakeppninn á Stöð 2 nýverið.
„Það má kannski orða það svo að tónlistin sé fyrir mig ákveðið afdrep. Ég leita í hana þegar ég þarf á því að halda. Stundum fær gítarinn að vera í friði í marga daga í röð en síðan gríp ég hann og eitthvað verður til. Ég á slatta af lögum sem ég hef svo sem ekkert unnið frekar með enda er töluvert dýrt að fá tíma í stúdíói. Hins vegar kveikti þessi samvinna við þá Val Frey, Jóel Örn og Viktar Mána ákveðinn neista hjá mér að halda áfram á þessari braut og niðurstaðan verður sennilega sú að við munum vinna saman meira efni á næstu önn og taka upp,“ segir Örn Smári.
Hann er núna í annarlok að ljúka grunnnámi listnámsbrautar og eftir áramót fer hann á textílsvið listnámsbrautar. Brautin hefur verið mörkuð, hann stefnir á fatahönnun. „Ég neita því ekki að ég hef haft töluverðan áhuga á fötum og tísku en þegar ég hugsa til baka var það hreinlega ekki tilfellið þegar ég var í áttunda bekk grunnskóla. Þá var ég venjulegi gaurinn, gekk um í hettupeysu og var í sömu fötunum dögum saman. En þetta hefur breyst. Þó svo að ég sé sjálfur ekkert upptekinn af því að klæða mig upp í nýjustu tísku fylgist ég ágætlega með tískustraumunum og set mig inn í það nýjasta í fatahönnun. Mér finnst þetta mjög áhugavert svið og því ákvað ég að hella mér í þetta nám. Fatahönnun og tónlistarsköpun er fín blanda,“ segir Örn Smári Jónsson.