Tungumálakennarar bera saman bækur sínar
VMA tekur þátt í Nord+ verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem sjónum er beint að tungumálakennslu í fjórum Norðurlöndum – Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Íslandi. Í síðustu viku voru fulltrúar hinna þriggja landanna í VMA þar sem þeir sem leiða verkefnið báru saman bækur sínar og lögðu á ráðin um næstu skref.
Verkefnið hófst sl. haust með fundi í Gautaborg og því verður fram haldið á þessu ári og því næsta og lýkur með fundi í Noregi. Að verkefninu standa skólar og stofnanir, auk VMA eru þetta Köbenhavns VUC (voksen uddannelses center, Katrinelundsgymnasiet i Gautaborg í Svíþjóð, Hadeland videregående skole i Noregi og Århus Universitet í Danmörku. Sem fyrr segir beinir verkefnið sjónum að tungumálakennslu. Sem rauður þráður í gegnum það eru norrænar glæpasögur en sem kunnugt er hafa Norðurlöndin markað sér ákveðna sérstöðu í útgáfu á glæpasögum og gerð glæpaþátta í sjónvarpi. Um er að ræða svokallað Nord+ verkefni og greiðir Norræna ráðherranefndin ferðakostnað og uppihald.
Liður í verkefninu eru kennaraskipti á milli landanna. Tungumálakennarar fara til hinna þátttökulandanna og kynna sér kennslu og kenna nemendum í viðkomandi skólum. Liður í þessum samskiptum var heimsókn tveggja danskra kennara í VMA í síðasta mánuði og þessa viku verða tveir dönskukennarar úr VMA, Annette de Vink og Þorbjörg Dóra Gunnarsdóttir, í Kaupmannahöfn til að kynna sér starfsemi Köbenhavns VUC og kenna nemendum þar.