Umsjónarkennari erlendra nema
Núna á haustönn hefur Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir gegnt starfi verkefnastjóra erlendra nema í VMA. Í því felst að annast utanumhald erlendra nema sem nú stunda nám við skólann.
Erlendir nemendur, sem ekki hafa íslensku sem móðurmál, í VMA í vetur koma víða að úr heiminum. Þar af eru fjórir nemendur frá Úkraínu, sem flúðu heimalandið vegna stríðsátakanna þar. Einnig er einn nemandi frá Hvíta-Rússlandi sem kom til Íslands af sömu ástæðu. Einn af nemendunum frá Úkraínu stundar nám í fjarnámi við háskóla í heimalandinu sem hún var byrjuð í þegar hún flúði landið.
„Þetta er nýtt starf hérna í skólanum og í því felst annars vegar að halda utan um þessa nemendur, ég er í góðu sambandi við þá, styð þá og vísa þeim veginn í sínu daglega starfi, eins og kostur er, hvort sem er hér í skólanum eða utan hans. Hins vegar felst starf mitt í því að móta verkferla hér innan skólans varðandi erlenda nemendur, endurskrifa móttökuáætlun o.fl. Ég tek þó fram að VMA er og hefur verið að gera mjög vel fyrir þessa nemendur en það er alltaf gott að skerpa verkferla og horfa á málin í víðu samhengi. Um íslenskukennsluna sjá Annette de Vink og Dagbjört Lauritz Agnarsdóttir. Annette kennir sextán nemendum íslensku, sem eru komnir skammt á veg í tungumálinu, en Dagbjört kennir nemendum af erlendum uppruna sem lengra eru komnir en þurfa stuðning í málinu. Ég hef einnig lagt mitt af mörkum í einstaklingskennslu fyrir þá sem eru nýlega byrjaðir að læra tungumálið. Eðli málsins samkvæmt sækja þessir nemendur mikið til mín því ég er í raun umsjónarkennari þeirra hér í skólanum,“ segir Jóhanna en í kennaranámi sínu tók hún alla þá áfanga sem tengdust á einn eða annan hátt nemendum af erlendum uppruna.
Fyrir utan þessa tæplega þrjátíu nemendur af erlendum uppruna, sem læra íslensku sem annað mál, eru fjölmargir aðrir nemendur í skólanum af erlendum uppruna en Jóhanna segist ekki hafa upplýsingar um heildartölu þeirra. Hún segir allt benda til þess að á næstu árum muni nemendum af erlendum uppruna fjölga í VMA eins og öðrum skólum.
Jóhanna segist hafa sett sig í samband við aðra framhaldsskóla til þess að fá upplýsingar um hvernig þeir standi að málum fyrir nemendur af erlendum uppruna. Einnig hafi hún fengið upplýsingar um starf grunnskóla á Akureyri í þessum efnum.
Hér eru myndir sem voru teknar á dögunum þegar Annette de Vink og Dagbjört Lauritz Agnarsdóttir voru að kenna nemendum sínum íslensku.
Jóhanna starfaði lengi hjá fyrirtækinu Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, fyrst og fremst varðandi ferðir á vegum fyrirtækisins til Grænlands. Frá árinu 2013 var Jóhanna á sumrin í Kulusuk á Grænlandi og kynnti viðskiptavinum Íslenskra fjallaleiðsögumanna náttúru og menningu á Grænlandi. Einn góðan veðurdag segist Jóhanna hafa fundið til löngunar til þess að gera eitthvað allt annað, eftir nokkurra ára erilsamt starf í ferðaþjónustunni. Hún skráði sig í kennsluréttindanám í covid-faraldrinum og fór síðan að kenna í Hólabrekkuskóla í Reykjavík, þar á meðal nemendum af erlendum uppruna. Kennsluréttindin komu ofan á meistarapróf Jóhönnu í mannfræði.
Fjölskyldan flutti til Akureyrar í ágúst sl. og þegar Jóhönnu bauðst að taka þessa verkefnastjórnun að sér í VMA nú á haustönn segist hún ekki hafa þurft að hugsa sig lengi um. Eiginmaður Jóhönnu er frá Akureyri og starfar eftir sem áður hjá sama fyrirtækinu í tölvugeiranum.