Undirbúa sig fyrir Gettu betur
Þessa dagana einbeita nemendur sér að próflestrinum og því liggur félagslíf niðri að mestu leyti á meðan. Og síðan tekur við jólafríið og því gerist fátt markvert í félagslífinu fyrr en á nýrri önn, í byrjun janúar. En þá fer líka allt á fullt á nýjan leik. Nú þegar er búið að skipa í Gettu betur lið VMA og sömuleiðis eru línur að skýrast í undirbúningi fyrir leiksýninguna sem Yggdrasil – leikfélag VMA setur upp á vorönn.
Eins og fram hefur komið var Urður Snædal ráðin til þess að þjálfa Gettu betur lið VMA í vetur, sem hefur fyrir nokkru verið valið. Það skipa Mývetningarnir Stefán Jón Pétursson, sem raunar er formaður Þórdunu – nemendafélags VMA, og Steingrímur Viðar Karlsson og Akureyringurinn Margrét S. Benediktsdóttir. Þessir vösku þremenningar hafa verið að æfa fyrir Gettu betur að undanförnu undir handleiðslu Urðar, en hún kemur víða við þessa dagana í spurningakeppnum enda er hún í liði Akureyrar í Útsvarinu sem á dögunum sigraði viðureignina við nágrannana í Dalvíkurbyggð. Gettu betur fer að vanda í gang í janúar og sem fyrr fer fyrsti hlutinn fram í útvarpi en á síðari stigum færist keppnin í sjónvarpið.
En þrátt fyrir haustannarprófin er unnið á fleiri vígstöðvum í félagslífinu, því í mörg horn verður að líta eftir áramótin. Unnið hefur verið að samningum vegna árshátíðar nemenda VMA og þá er allt komið í fullan gang vegna leiksýningarinnar „Bjart með köflum“ eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem stefnt er að því að frumsýna í Freyvangi 27. febrúar. Búið er að skipa í öll 15 hlutverkin í sýningunni og sömuleiðis er hljómsveit sýningarinnar klár, en í heildina má gera ráð fyrir að á fjórða tug manna komi á einn eða annan hátt að uppfærslunni. Meira um árshátíðina og „Bjart með köflum“ síðar.