Var aldrei stressuð
Jóna Margrét Arnarsdóttir stundar nám á náttúruvísindabraut VMA – og hún er nýbakaður bikarmeistari í blaki með KA-liðinu. Úrslitaleikurinn gegn Aftureldingu í Digranesi í Kópavogi sl. sunnudag fer í sögubækurnar sem einn af mest spennandi úrslitaleikjum í blakinu á síðari árum.
Jóna Margrét, sem er fyrirliði KA-liðsins, segir alltaf jafn sætt að vinna stóra titla í blakinu og bikartitillinn um helgina hafi þar ekki verið nein undantekning. Árið 2019 unnu KA-stelpur þrefalt – urðu deildarmeistarar, bikarmeistarar og Íslandsmeistarar – og 2020 urðu þær deildarmeistarar. Í ár er kominn einn titill í hús og góður möguleiki er á því að deildarmeistaratitillinn bætist við um næstu helgi þegar KA tekur á móti HK í síðasta leik deildarkeppninnar. Þá liggur fyrir að KA mætir liði Álftaness í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn og Jóna Margrét segir það ekkert launungarmál að stefnan sé sett á að vinna þrefalt í ár.
Þó svo að Jóna Margrét sé ung að árum, hún verður nítján ára á þessu ári, er hún reynslumikil blakkona. Hún byrjaði tólf ára gömul í meistaraflokki KA! Núna er hún í lykilhlutverki í liðinu sem uppspilari – leikmaðurinn sem þarf að hafa yfirsýnina, sjá sóknarmöguleikana og leggja upp fyrir liðsfélagana.
En aftur að bikarúrslitunum um helgina sem var sannkallaður spennuþryllir og fór í fimm hrinur. Það blés ekki byrlega fyrir KA því eftir þrjár hrinur var Afturelding með forystu, 2-1, og var því í kjörstöðu að taka bikarinn með því að vinna fjórðu hrinuna líka. En KA-konur neituðu að gefast upp, þær jöfnuðu metin og unnu síðan örugglega í úrslitahrinunni. Þar með var ljóst að bikarinn færi norður. Jóna Margrét segir að á pappírunum hafi margir horft til Aftureldingar sem sterkara liðsins en styrkur KA væri öflug liðsheild og gleði í spilamennskunni sem skipti öllu máli þegar út í alvöruna væri komið. Þrátt fyrir að vera undir eftir þrjár hrinur segist hún aldrei hafa verið hrædd um að tapa leiknum og liðið hafi sýnt mikla rósemi og yfirvegun. Það hafi að lokum skilað sigri.
Að baki slíkum árangri er gríðarlega mikil vinna. Jóna Margrét segir að liðið æfi alla daga nema sunnudaga og þar að auki séu styrktaræfingar tvisvar í viku. Þá daga séu því tvær æfingar á dag. Með náminu á náttúruvísindabraut í VMA hafi hún því nóg að gera. „Ég reyni að vera mjög skipulögð og nýta allar þær stundir sem gefast til þess að sinna bæði náminu og blakinu vel,“ segir Jóna Margrét og bætir við að hún hafi upphaflega stefnt á að útskrifast núna í maí en hafi ákveðið, til þess að gefa blakinu nægilega mikinn tíma, að taka námið á sjö önnum. Því sé stefnan tekin á stúdentinn í lok haustannar.
En hvað tekur þá við? Ekki gott að segja, segir Jóna Margrét, en upplýsir að hún hafi áhuga á því að spreyta sig í blakinu í útlöndum og í framhaldinu að læra eitthvað raungreinatengt – og spila blak jafnframt.