Vegleg gjöf til VMA frá Vatni og veitum
Fulltrúar Vatns og veitna/Rönning á Akureyri komu heldur betur færandi hendi í VMA í gær og afhentu skólanum að gjöf fyrir hönd Vatns og veitna, dótturfélags Rönning, suðuvél fyrir PPR-plast, fittings og rör. Verðmæti gjafarinnar er tæp hálf milljón króna. Gjöfin kemur sér sannarlega vel fyrir nám í pípulögnum, sem er grein innan byggingadeildar VMA, því nú er kominn í skólann búnaður og efni til þess að kenna nemendum hvernig unnið er með PPR-plaströr en til þessa hefur þurft að leita til pípulagnafyrirtækja á Akureyri til þess að kenna nemendum að nota PPR-plast suðuvélina.
Á vorönn fór Elías Örn Óskarsson, kennari í pípulögnum í VMA, með hóp nemenda sinna á kynningu hjá Rönning á Akureyri á vörum og búnaði sem Vatn og veitur hafa í boði. Á kynningunni var m.a. Áskell Viðar Bjarnason, verslunarstjóri Vatns og veitna í Reykjanesbæ. Í framhaldinu ákváðu forráðamenn Vatns og veitna/Rönning að leggja VMA lið með framangreindri gjöf. Í gær komu síðan Friðbjörn Benediktsson, verslunarstjóri Rönning á Akureyri, og Björn Birgir Björnsson, starfsmaður Rönning á Akureyri og pípulagningamaður, í VMA með gjöfina og afhentu skólanum hana formlega. Gjöfinni veittu viðtöku Elías Örn Óskarsson og Anna María Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA.
Elías sagði ómetanlegt að fá slíkan stuðning úr atvinnulífinu til þess að efla nám í pípulögnum og bætti við að það væri sér sem kennara afar mikilvægt að geta nú kennt nemendum á þennan búnað í skólanum en þurfa ekki lengur að leita út fyrir skólann í því skyni. Núna á vorönn hafa ellefu nemendur stundað nám í pípulögnum við VMA. Elías bætti við að Rönning hafi í gegnum tíðina stutt myndarlega við skólastarfið í VMA og afar þakkarvert væri að dótturfélagið Vatn og veitur gerði slíkt hið sama.
Anna María Jónsdóttir aðstoðarskólameistari ítrekaði þakkir VMA til Vatns og veitna og Rönning fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem hún sagði nýtast skólanum afar vel. Verkmenntaskólanum væri það afar mikils virði að fá slíkan stuðning úr atvinnulífinu og fyrir það vildi hún þakka af heilum hug fyrir hönd skólans.