Búnaðurinn þarf ekki alltaf að vera flókinn!
Vegna covid 19 hefur hluti kennslunnar sem áður var í dagskóla færst yfir í dreifnám – fjarkennslu, eins og áður hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni. Kennarar fara ólíkar leiðir í nálgun sinni við að fjarkenna nemendum. Adam Óskarsson og Haukur Jónsson deila vinnurými í skólanum og báðir kenna þeir stærðfræðiáfanga, Adam kennir rúmfræði og hornaföll og Haukur vigra og hornaföll. Þeir veltu vöngum yfir því hvernig því væri best háttað að miðla nokkuð flóknu efni í gegnum netið til nemenda og lendingin var sú að þeir settu upp einfaldan en skilvirkan búnað við tölvur sínar, þeir útbjuggu einskonar gálga úr spítukubbum og festu á þá myndavélar sem eru tengdar við netið á meðan á fjartímunum stendur. Myndavélunum er beint niður á skrifborðið og á blöð skrifa Adam og Haukur upp dæmi og leiða nemendur áfram eins og þeir væru að horfa á töflu í skólastofu um leið og þeir tala við nemendur og skýra dæmin út. Fjarkennslan fer fram í BigBlueButton kerfinu og gengur ljómandi vel.
Adam og Hauki ber saman um að mæting á þessa fjarkennslufundi sé ekkert síðri en ef kennslan væri í kennslustofu og margir nemendur séu ágætlega virkir og sendi inn spurningar á meðan á kennslunni stendur. „Ég finn ekki annað en að krakkarnir séu ágætlega ánægðir með þetta. Þessi einfalda lausn virkar vel og skilar sér að mér finnst vel til nemenda. Ég var með kennslustund í síðustu viku og þá vildi svo til að á sama tíma þurfti einn nemenda í áfanganum að aka landleiðina til Reykjavíkur. Hann missti þó ekki af tímanum, hann sat í farþegasæti í bíl og tók þátt í stærðfræðitímanum í símanum sínum upp á Holtavörðuheiði. Í þessu tilviki hefði nemandinn misst af tímanum ef hann hefði farið fram á hefðbundinn hátt í skólastofu. En auðvitað er misjafnt hversu vel fjarkennslan hentar nemendum, sumum hentar hún mjög vel en öðrum síður,“ segir Adam.