Með akrílpenslana á lofti
Þeir nemendur á listnáms- og hönnunarbraut sem eru komnir vel áleiðis í námi sínu hafa síðustu vikur tekið bóklega áfanga í fjarnámi en haft tækifæri til þess að vinna með penslana í kennslustofunum í VMA. Væri allt eins og það á vera í samfélaginu gætu nemendur deilt einni kennslustofu en það er ekki hægt núna vegna bæði takmarkana á fjölda í hverju rými og tveggja metra fjarlægðarreglunnar. Þegar litið var inn á listnáms- og hönnunarbrautina voru nemendur í kennslustund hjá Önnu Maríu Guðmann – Amí – að vinna í akrílmálverkum.
Amí segir að þrátt fyrir veirufaraldurinn hafi tekist að vinna markvisst í þessum áfanga, þar sem áherslan er á að nemendur vinni málverk með akríllitum. Nemendur gera verk út frá sínum hugmyndum, þróa þau áfram og vinna allt til enda undir handleiðslu kennara. Áhersla er lögð á sjálfstæði í vinnubrögðum.
Vinnan gengur vel fyrir sig en covid-reglurnar gera það að verkum að nemendur mega ekki fara á milli rýma og mega heldur ekki ná í sameiginleg aðföng, aðeins Amí má fara á milli kennslustofanna og fara yfir málin með nemendum.