Hilmar Friðjónsson tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna
Hilmar Friðjónsson, kennari við VMA, er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2021, sem verða afhent í næsta mánuði.
Að Íslensku menntaverðlaununum standa Embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Íslensku menntaverðlaunin eru veitt árlega fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum.
Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum:
- Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
Frestur til að senda inn tilnefningar rann út 1. júní sl. og hefur svokallað viðurkenningaráð farið yfir þær og í dag, 5. október, á Alþjóðlega kennaradeginum, eru tilnefningarnar gerðar opinberar. Hilmar Friðjónsson er tilnefndur í flokknum Framúrskarandi kennari.
Hér eru allar tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna í ár.
Um tilnefningu Hilmars segir á heimasíðu Samtaka áhugafólks um skólaþróun:
Hilmar Friðjónsson, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir að þróa frjóar og áhugavekjandi leiðir í stærðfræðikennslu.
Hilmar er kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann hefur lagt áherslu á að þróa nýjar og óhefðbundnar leiðir til að auðvelda nemendum stærðfræðinám. Sérstaka athygli vekja stutt myndbönd sem Hilmar hefur unnið og útskýra ýmsa þætti í stærðfræðinni í tali og myndum. Alls hefur hann útbúið um 700 slík myndbönd og hafa allir nemendur við VMA aðgang að þeim á innra vef skólans. Fyrirmynd Hilmars að þessu leyti er Bandaríkjamaðurinn Salman Khan sem vakið hefur heimsathygli fyrir myndbönd sín og starf sitt á kahnacademy.org. Hilmar er vinsæll bæði meðal nemenda og samstarfsmanna, þykir einstaklega hjálpsamur og áhugasamur um að hjálpa nemendum sem eiga erfitt uppdráttar.
Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:
Hilmar er mikill áhugamaður um margmiðlun sem hann hefur nýtt mikið í störfum sínum bæði í kennslunni og með því að miðla til nemenda og samstarfsfólks. Hann hefur alla tíð náð einstaklega vel til nemenda sem standa höllum fæti í námi og sérstaklega í stærðfræði. Hann nálgast nemendur með fagmennsku, út frá styrkleikum þeirra með fjölbreyttum kennsluaðferðum og umhyggju. Hann er frábær samstarfsfélagi, alltaf tilbúin að hjálpa og miðla til allra. Hann hefur verið leiðandi í notkun upplýsingatækni í kennslu við skólann og komið með nýjar nálganir og hugmyndir inn í starfsmannahópinn. Alltaf tilbúin til að leiðbeina og prófa nýja hluti. Hann setur sig auðveldlega í spor nemenda, eflir þá út frá styrkleikum þeirra og nær þannig árangri með nemendum. Í stærðfræðikennslu hefur hann einstakt lag á að hvetja nemendur áfram til árangurs og hafa margir nemendur þakkað honum fyrir að hafa komið sér áfram í náminu og að skilja stærðfræði.