Grunnskólanemendur kynntu sér VMA
Það hefur verið heldur betur gestkvæmt í VMA síðustu tvo daga. Ástæðan er einföld: Árleg grunnskólakynning.
Grunnskólanemar, flestir í 10. bekk, af öllu Norðurlandi fjölmenntu í VMA í gær og fyrradag til þess að fá innsýn í skólastarfið. Til að byrja með fræddu námsráðgjafar skólans nemendur um námsframboð í skólanum og fleira gagnlegt um skólastarfið. Einnig kynnti stjórnarfólk í Þórdunu félagslífið í skólanum. Síðan gengu nemendur um skólann og fengu kynningar á hverri námsbraut frá bæði nemendum og kennurum brautanna.
Síðastliðinn miðvikudag komu í skólann nemendur úr Naustaskóla á Akureyri og grunnskólum utan Akureyrar - frá Þórshöfn í austri til Húnabyggðar í vestri. Í gær fjölmenntu nemendur úr öðrum grunnskólum Akureyrar að Lundarskóla frátöldum en skólastarf liggur þar niðri vegna verkfalls kennara. Í það heila sóttu VMA heim að þessu sinni vel á fjórða hundrað nemendur.
Grunnskólakynningarnar eru alltaf einstaklega ánægjulegar og er öllum nemendum og starfsfólki grunnskólanna sem komu með nemendum sínum í VMA þakkað kærlega fyrir komuna.
Á þessum myndum, sem voru teknar í gær, eru nemendur úr grunnskólum Akureyrar.